Snæfellsjökull.

I                                                          

Í sæöldufaldi að sjónarrönd

sindrar merlandi hafblámaglitur.

Með glóbjörtum skýjum stefnir að strönd

stríður svalvindsins nálægi þytur.

Mannsaugun hylla þann ljóssins loga

leiftrandi gullin um firði og voga.

Þar hafferskum lyftir bárum blær

blíðlega, jafnan frískur og tær.

Og blása vill hann að vesturfjöllum,

verma fjörurnar hjá þeim öllum.

 

Í norðvestri blasir við himni háum

heillandi stórbrotin fjallasýn,

þar hvítur tindrar mót bárum bláum,

blikar sem geislandi töfralín

jökullinn prúði í litríkum ljóma,

þú landslagsins útvörður ríkir með sóma.

Og alltaf er sælt þegar sólbirtan dvín

að seiða fram bros og hugsa til þín.

II

Ég gekk í æsku um austurgilið

og yfir snæviþakta hlíð.

Þar gat ég brátt í skjóli skilið

hve skjaldbungan er tignarfríð.

Með sjónarhring til allra átta

í unaðskyrrð um miðdagstíð

ég fékk að horfa á háa tindinn.

Mót himni blasti strandarmyndin.

 

Þú ert mikið máttarverk,

meitlað Guðs af höndum.

Í þér blundar storkan sterk

í storðardjúpum vöndum.

Traustu björgin tigin, merk

taka saman höndum.

 

Klettaströndin kleif og há

klýfur sjávarföllin.

Austanvindur yrja má

yndisdögg á völlin.

Utar lyftist báran blá,

Í bólstrum feykist mjöllin.

 

Við sjávarbakka með haföldu háa

í Hellnasveit er brimúðug strönd.

Innar grær sóley hjá sandmelnum lága

og sólvindar fegra öll dalalönd.

 

III

Frá Reykjavík ég horfi yfir hafið,

heiðhvolfið morgunsins gneistandi skín.

Það skýjum undir glitrar geislatrafið

og glaðlega neðar í vindinum hvín.

En innar blika fagrir fjallatindar,

þar fannir allar ber við skýjarönd.

Og útsýnið svo mikilfenglegt myndar

megin fjallasýn á aðra hönd.

 

Með blíðan svip og bros í ljúfu hjarta

við berum svipinn þessa fjallakrans.

Einarðleg með óskastund svo bjarta

við eflum samhug þegna fósturlands.

 

 

Þú marga heillar, heilsar jötni líkur

heimafólki rétt við úfinn sæ,

jökullinn af réttri orku ríkur

reginafli síst mun varpa á glæ.

 

IV

Fagurbjartur, fannahvítur,

fellum krýndur austan til

jökull sem að jafnan lítur

jötunmætur upp á við.

Brátt við dagsins skýru skil

skína tún og fiskimið.

 

Svipur þinn með dýra drætti

dugir mér, hann slær ei af.

Ætíð þú í mildum mætti

miðlar ró við norðurhaf.

Með þér vil ég finna frið,

fyllri gnægð sem andinn hlýtur.

 

Gleymdu orku- rammar - rætur

rafurelds í djúpri jörð.

Úr fjarlægð blikar fræðamætur,

fönnum krýndur niðr'  í  svörð.

Fríður ert með ferskan klið,

frónskur vel og skjannahvítur.

Bjartur, tiginn, gefur grið,

gleður hvern sem enn þig lítur.

 

Alltaf lyftast færðu fagur

friðsæll þegar ljómar dagur,

skýjakær með skrautið glæsta,

skjöldinn, fannatindinn hæsta.

Stórbrotinn með hamra harða,

háa gilið veðurbarða.

 

Innan jaðr ´a   átt firna frið,

fönvind með svo þýðan klið,

stuðlaberg og stóran svip,

straumsins himinbornu grip,

lífsorkunnar ljúfa krans,

ljósgjafir vors himnaranns.

Þú nærir sýn með glæstum glans,

og glæðir fögnuð sérhvers manns.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson

 

 


Rammaslagskvæði: "Verum hress".

Hýrt má ræða, hnoða skjall,

hanna sinnisþankann,

skýrt þá fræða, skoða spjall,

skanna minnisbankann.

 

Fjalla sóma eygi enn,

alla hljóma miða.

Hjalla róma sveigi senn,

sælli óma friða.

 

Bragur prýðir ljóða lund.

Lyftu vorsins nýju stund.

Dagur skrýðir góða grund,

giftu þorsins, hlýju mund.

 

Mundu að yrkja á óskavori,

andann hylla í vænum smelli,

stundu virkja visku, þori,

vandann stilla í grænum hvelli.

 

Rækja áttu sanna sátt,

sækja hátt og unna dátt,

bæta ljóð og manna mátt,

mæta fróð í sunnanátt.

 

Fríður hljómur fagnar, gleður

fljóða róminn mæta hér.

Þýður ómur þagnar, kveður,

þjóða ljóminn kæta fer.

 

Lækur niðar, ljómað fær,

lindin kliðar hljómatær,

spræk hún iðar, ómar kær.

Yndið friðar blómamær.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson


Vatnajökull

Fögur stund mitt hjarta hrærir,

heilladöggin vætir kinn.

Víða landsins nytjar nærir.

Náð mér veitir himininn.

 

Minn bjarti jökull vatns og varma

verndar orku klaka og skafls.

Hár og skær með breiða barma,

berð ægishjálm með gnægðir afls.

 

Ég til skjóls í skógarhlíðum

skunda glaður, fagna þér.

Tignarfjöll með tindum fríðum,

tröllum lík þau heilsa mér.

 

Ofan frá jökulsins efsta tind

unaðstær birta dalskrúð vefur.

Heillandi bjarmi, sú litfagra lind,

lífsvatnið hefur þá glóandi mynd.

Litadýrð náttúru landsins gefur,

lífsfylling varir og óróinn sefur,

er skynjar hjartað, það hugur veit,

með himnesku þori í kliðandi blænum.

Kyrrðin hún andar í úða mót sænum

við angandi laufin í fríðleikans reit.

 

Mæti ég hjartans hugljúfu leit

með heillandi gleði í blómarunni,

óskandi fagna af innsta grunni

ilmandi berjum í fallegri sveit.

 

Landið allt hlýnar í hásumryl,

hjartanu lyftandi margradda sveimur.

Svalviðrið hreina með heiðhvelsins nið,

heillar mig glitský og flugvængjaeimur.

Hvellur nú lómur, um langdegið syngur,

lofandi strauminn um árgilin víð.

 

Blasir við síbjartur sjóndeildarhringur,

söngfuglinn ljúfi og gróandi hlíð.

Nú greini ég betur hin skörpustu skil,

skýrari línur í hamranna tindum.

Landslagið snarbratta leiftrar um hríð,

lifandi fegurð í skjannhvítum myndum.

 

Ég hugsa um fuglinn sem fer hér á kreik

og fisléttum vængjunum beitir.

Hann útsýnis nýtur í nettustum leik

er næðingur uppstreymi veitir.

 

Frá Kára úr norðri of skýst hann í skjól,

í skógarins fylgsnum hann syngur.

Við hreiðrið oft nostrar og bætir sitt ból

og ber þangað fæðuna slyngur.

 

Albjartur himinn hugblæinn kætir,

heiðblámans röndin er skínandi kvik.

Regnskúrinn blikar, bjarkirnar vætir,

birtan nú skerpist um hvarmanna vik.

 

Golunnar þytur brosið allt bætir,

brjóstið mun kætast við sóldaggafjöld.

Hugprýði margra að góðlyndi gætir

í grænkandi lundum þó áttin sé köld.

 

Fram ég lít og lyfti mínum augum

ljós í mót og þínum fannabreiðum,

ferðast um með blik á hvarmabaugum,

beint ég geng og syng á mínum leiðum.

 

Hátt í skýjum birtist bólstramyndin,

blístra ég svo kátur upp í vindinn.

Gaman væri nú að halda hærra,

heilsa öllu sem er mönnum stærra.

 

Fuglinn glaður sér úr leyni lyftir,

lífsins vilji er honum einkar kær.

Enn að fljúga mega, máli skiptir,

meta þá hið stærsta er lyngið grær.

 

Léttur sem fuglinn fanginn af þrá

flýg ég í huga yfir brekkur og rinda

áfram svo lipur og lífsglaður þá,

í lýsandi yndisleik háreistra tinda.

 

Hátt uppi víðsýnt af hamrinum er,

hlíðin sig breiðir út móti sænum.

Á laufgaða trjágrein svo tylli ég mér,

tek þar að vegsama ylinn í blænum.

 

Svalvindur örvar lífsþrek sem lifir,

lágróma kaldinn er ferskur og tær.

Hjartsláttur lífsins landinu yfir

í leiftrandi krafti birtist hér nær.

 

Er ég núna fjallahringnum fagna,

fannahvítri og bjartri jökulrönd,

rór ég minnist margra góðra sagna

um menn er nota starfsins klifurbönd,

við björgun lífs er gerist hönd í hönd,

sem hreysti og færni náðu best að magna.

Mál er, jökull, mér nú loks að þagna.

Mætur ertu hríð þó geysi vönd.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson


Ljóð tileinkað stúkunni " Framtíðinni " nr. 173

Hvatningarljóð

Glæðir þú visku með natni í næði,

nærandi lífsþrek og knýjandi störf,

bæta vilt heilsu með hollustu fæði,

heilbrigði styrkja og sálar þörf.

 

 

Gæfan er ofin úr þessum þáttum,

þekkja allt sem er bjart og milt.

Þá áttu heiður með sönnum sáttum

sigrandi ylinn og nú er skylt.

 

Daglega hérna á verði að vaka

vandað með þerk og gjöfult traust.

Oft er af mörgu svo mætu að taka

í máttugum vilja sem fyrr þú hlaust.

 

 

Til þess að lyfta og leysa úr vanda,

landsfólkið styrkja á framtíðarbraut.

Veldu hið rétta með röskleik í anda,

með réttvísi iðninnar leysist hver þraut.

 

 

Framtíðar gæfu þú blessunar biður,

bíða þín störfin svo áhugaverð.

Í framtaki lofsverðu leitandi styður

lífsmátann réttan, á sigrandi ferð.

 

(samið 24.febrúar 2008)

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson.

 


HUGPRÝÐI (upphaflega ort til Iðunnarfélaga)

Von sem glæðir viskunæma strengi

vænta má að síst að nokkrum þrengi

er verkin fara að heilla dáðadrengi.

Á daginn skaltu vinna oft og lengi.

 

Sóminn felst í því að bæta og byggja,

búa vel og þá að mörgu að hyggja,

vera góður, einskært tápið tryggja,

traust að glæða, heilræði að þyggja.

 

Veistu ei að brýna þörf skal bæta,

beita vilja og ljóst að öllu gæta?

Skapa heillir, engin þörf að þræta.

Þykkja skal ei neinn að marki græta.

 

Finna máttu þróttinn, þrek og næði,

þarft að gleðja og yrkja frumleg kvæði,

stuðla að því að lýður landið græði,

lengi og vel um sögu þjóðar fræði.

 

Í ys og ró má oft um blessun biðja,

bænarheitin kennir trúariðja.

Þó úti kólni og komi vetrar hryðja

má kjarksins hlýja jafnan þróttinn styðja.

 

Gleður bjartur Andans vonarvarmi,

veitir dáðan frið með sínum armi.

Lífið verndar birtu í hlýjum barmi,

blíðan veitir yl á næmum hvarmi.

 

Geymir kvæðalundin lipra hljóminn,

lofar dagsins himintæra róminn,

finnur taksins stuðla- og stefjaóminn.

Stengi hrærir forni sagnaljóminn.

 


Sumarblíða

Landið nær að sindra og sólskinsdöggin angar,

hún sumargróður nærir á meðan dagur skín.

Smáfuglarnir vaka og lífsglaðan þig langar

að lifa sæll í kyrrðinni er bærist fram til þín.

 

Gustur kælir vanga og víða regnið blikar,

þá verðugt er að starfa og reyna fjölmargt nýtt.

Þú nærð að vakna snemma og stæltur áfram stikar,

stórglaður og hrifinn, því landið er svo frítt.

 

Við þér blasa dagar og dýrðlegt er að lifa,

þú duga vilt og eflast á hverri morgunstund.

Ætíð skaltu gleðjast er tímans klukkur tifa

og tækifærin bíða, til nota góðri lund.


Reykjalundur

 

Með vonaryl svo verðugt er að starfa

og vernda það sem reynist mönnum kært,

að sinna heilsu er gefur þrótt til þarfa

og því sem reynslan hefur okkur fært.

En ljóst er að ég láni fékk að mæta

á lífsins vegi meður geðið hraust,

og glaður vil ég sífellt lagi sæta

með sólskinslund er boðar von og traust.

 

Sú vellíðan er mannsins heilsu magnar

á meginóðali Reykjalundinum góða.

Og einbeitnin sem eigin kröftum gagnar

fær aukaglóð sem blíðkar vanga rjóða.

Og starfsemin, hún stefnufestu gefur

með stöðugleikans nærgætni og vali,

sem beint til hliðar vanda vikið hefur

og varðað efnið meður skýru tali.

 

Í hjarta manns er margur eldur geymdur

er miðlar þreki og gleðja kann hans lund,

já, enn í fullu gildi og ekki gleymdur

á góðum degi vermir þig um stund.

Með natni helst má heillasporin þræða

sem hugann róar meðan dagur skín.

Enn styrkist heilsan, hollustu mun glæða,

það heiðursstarf, með óskum fram til þín.


Hjartaylurinn

Í þínu unga hjarta

er ofurlítill neisti,

er yljar hlýtt um brár.

 

Hann lifir þar í leyndum

svo ljúfur, ferskur, glaður

hvert þitt æviár.

 

Stilltu vel innri óminn.

Þú einkar næmi maður.

Yljar oss Drottins náð.

 

Gættu þess góði vinur

að glatt hann nái að loga.

Þá gefast heillaráð.

 

 


Ljóð: Þetta ljóð er tileinkað félagsskap eldri presta.

Hjartahlýja.

Glaðlyndið, hinn gæskuríki máttur,

glæðir mannsins þel á reynslu stund.

Reyndu því að vera í sinni sáttur,

sækja fram á ný, þá hlýnar mund.

Stöðuglyndið helst sem hjartans þáttur

til heilla vorri þjóð á feðra grund.

Að gleðja aðra er gæfumanna háttur

Guðs á vegi er bætir dagsins fund.

 

Þá er gott að geta sæll í lundu

með góðum unað frjáls í ljúfri ró,

numið hlýju og auðnu´ á eigin grundu

einlægur með bróðurþelið nóg,

trúfesti sem Guð vor okkur gefur,

á gæfuslóð er vonin fersk og skýr.

Gerðu vel. Sjá lífsins ljós þú hefur,

lyftu því sem innra fyrir býr.

 


« Fyrri síða

Um bloggið

Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Höfundur

Bjarni Theodór Rögnvaldsson
Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Bloggvinir

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 13
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband