Vatnajökull

Fögur stund mitt hjarta hrærir,

heilladöggin vætir kinn.

Víða landsins nytjar nærir.

Náð mér veitir himininn.

 

Minn bjarti jökull vatns og varma

verndar orku klaka og skafls.

Hár og skær með breiða barma,

berð ægishjálm með gnægðir afls.

 

Ég til skjóls í skógarhlíðum

skunda glaður, fagna þér.

Tignarfjöll með tindum fríðum,

tröllum lík þau heilsa mér.

 

Ofan frá jökulsins efsta tind

unaðstær birta dalskrúð vefur.

Heillandi bjarmi, sú litfagra lind,

lífsvatnið hefur þá glóandi mynd.

Litadýrð náttúru landsins gefur,

lífsfylling varir og óróinn sefur,

er skynjar hjartað, það hugur veit,

með himnesku þori í kliðandi blænum.

Kyrrðin hún andar í úða mót sænum

við angandi laufin í fríðleikans reit.

 

Mæti ég hjartans hugljúfu leit

með heillandi gleði í blómarunni,

óskandi fagna af innsta grunni

ilmandi berjum í fallegri sveit.

 

Landið allt hlýnar í hásumryl,

hjartanu lyftandi margradda sveimur.

Svalviðrið hreina með heiðhvelsins nið,

heillar mig glitský og flugvængjaeimur.

Hvellur nú lómur, um langdegið syngur,

lofandi strauminn um árgilin víð.

 

Blasir við síbjartur sjóndeildarhringur,

söngfuglinn ljúfi og gróandi hlíð.

Nú greini ég betur hin skörpustu skil,

skýrari línur í hamranna tindum.

Landslagið snarbratta leiftrar um hríð,

lifandi fegurð í skjannhvítum myndum.

 

Ég hugsa um fuglinn sem fer hér á kreik

og fisléttum vængjunum beitir.

Hann útsýnis nýtur í nettustum leik

er næðingur uppstreymi veitir.

 

Frá Kára úr norðri of skýst hann í skjól,

í skógarins fylgsnum hann syngur.

Við hreiðrið oft nostrar og bætir sitt ból

og ber þangað fæðuna slyngur.

 

Albjartur himinn hugblæinn kætir,

heiðblámans röndin er skínandi kvik.

Regnskúrinn blikar, bjarkirnar vætir,

birtan nú skerpist um hvarmanna vik.

 

Golunnar þytur brosið allt bætir,

brjóstið mun kætast við sóldaggafjöld.

Hugprýði margra að góðlyndi gætir

í grænkandi lundum þó áttin sé köld.

 

Fram ég lít og lyfti mínum augum

ljós í mót og þínum fannabreiðum,

ferðast um með blik á hvarmabaugum,

beint ég geng og syng á mínum leiðum.

 

Hátt í skýjum birtist bólstramyndin,

blístra ég svo kátur upp í vindinn.

Gaman væri nú að halda hærra,

heilsa öllu sem er mönnum stærra.

 

Fuglinn glaður sér úr leyni lyftir,

lífsins vilji er honum einkar kær.

Enn að fljúga mega, máli skiptir,

meta þá hið stærsta er lyngið grær.

 

Léttur sem fuglinn fanginn af þrá

flýg ég í huga yfir brekkur og rinda

áfram svo lipur og lífsglaður þá,

í lýsandi yndisleik háreistra tinda.

 

Hátt uppi víðsýnt af hamrinum er,

hlíðin sig breiðir út móti sænum.

Á laufgaða trjágrein svo tylli ég mér,

tek þar að vegsama ylinn í blænum.

 

Svalvindur örvar lífsþrek sem lifir,

lágróma kaldinn er ferskur og tær.

Hjartsláttur lífsins landinu yfir

í leiftrandi krafti birtist hér nær.

 

Er ég núna fjallahringnum fagna,

fannahvítri og bjartri jökulrönd,

rór ég minnist margra góðra sagna

um menn er nota starfsins klifurbönd,

við björgun lífs er gerist hönd í hönd,

sem hreysti og færni náðu best að magna.

Mál er, jökull, mér nú loks að þagna.

Mætur ertu hríð þó geysi vönd.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Höfundur

Bjarni Theodór Rögnvaldsson
Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Bloggvinir

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 27
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 27
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband