Drög að ljóðrænu söngverki " Á vængjum draumsins " (nokkur af fyrstu erindunum)

Formálserindi

Jákvæð hugsun skýr í störfum sterkum

styrkjast fær með viljans þreki góða.

Hógværð eflir yndi blítt í verkum

Með auðnustund á kyrrðardögum hljóðum.

Hreinskilni má bestu vinsemd bjóða,

bæta geðhrifin hjá mönnum fróðum.

Gæfan græðir sál,

gjöfult feðra mál.

Gott er inni, en heimur á sitt prjál.

 

Dagur allt gleður með gæskustundum,

góðum vilja sinnir æskan fríð.

Oft ég lék mér einn í skógarlundum,

yndi dagsins, sumartíðin blíð

stilltist nær og stundin reyndist löng

við störf í kyrrð með ljúfum fuglasöng.

Áttu rósaást?

Áður fyrr hún sást.

Örmum vafin ennþá mun hún fást.

 

Eflist vinnustund sem er til staðar,

stýrir dagsins ferli rétta leið.

Beint mót degi fram þú heldur hraðar,

hugrekkinu með er slóðin greið.

Ylur kvöldsins kyrrist við þitt bú,

kjarnahugsun skýrist meður trú

á allt hið góða, dáðir morgundagsins,

draumaró og fegurð óskabragsins.

Blíður himins blær

með brjóstsins ró nú hlær.

Birta sálar kann að verða skær.

 

1 þáttur án prósa. Hin góðu kynni.

Hér og ofar allt um kring

óskablærinn ferskur lyftir

öllu er mestu máli skiptir,

mannsins störfum tímans hring.

Veröldin með vonarskjöld

vakir, friðar sálir manna,

eflir heillir heiðvirðs granna

frá himinsölum öld af öld.

Heilsar þróttsins hönd

hafsins fríðu strönd

á heillastund, sem kannar fríðust lönd.

 

Svíf ég létt í draumsins daggarúða

dúrinn ljúfi gefur mönnum ró,

birtast fæ í mildimjúkum skrúða

meður kyrra blænum fram við sjó.

Er sem geislinn, gegnumstreymið kunna,

geymi bros sem lífsfögnuði unna.

Stúlka stillt og skýr

með stafaró þar býr,

stendur kyrr og að mér núna snýr.

 

Í ljúfri nálægð mætir morgunlitir

milda hjartans ró í bliki nýju.

Heyrist talað: Rétt er vel þú vitir

að vanda skal til alls með nægri hlýju.

Bjart er yfir brá,

best að koma og sjá.

Ber mig vel og auðmjúk reynist þrá.

 

Er sem tilvist tærrar æskukæti

taki að birtast nú sem aldrei fyrr.

Á slíkum morgni mér ég kann ei læti,

mæli hægt og reyni að vera kyrr.

Kominn er ég hvert?

Kostuleg þú ert!

Að kunna að heilsa er fjarska mikils vert.

 

Blær í heiði er ég heyri óma

áhrif hefur góð í för með sér.

Í mildum orðum margt ber þá á góma,

mild er röddin ljúf sem hljóma fer.

Vel nú skalt þig vanda

vænn til munns og handa.

Vönduð er og prúð í mínum anda.

 

Með geislabrosi orkan utar glæðir

yndissýn í litum, grænum, bláum.

Einbeitingin mótast meðan næðir

morgunnsvalinn yfir brekkum lágum.

Kátur strengur bætir geðið bjarta,

brjóstsins rósemd stillir vit og hjarta.

Glóir kyrrð og gróður,

gætinn reynslusjóður.

Glaðnar ásýnd, sjálfur er ég hljóður.

 

Hlýrri sóma hef ég sjaldan kynnst,

hjartans góði sálarandinn skilur.

Í sælli vitund yndis fylling finnst,

fögur gnægð og léttur stundarylur.

Í slíkri andakt úr læðingi leysist

lífsfylling sem úr álögum þeysist

Algjörleikans yndi,

innri gæfu fyndi

er ég heill og sannur reynast myndi.

 

Hamingjunnar velferð þarf að vanda,

valinn streng og gjöf sem heiðra skal.

Brosað, hvíslað hægt í ljúfleiks anda.

Hreinn þú sért og gætinn með þitt tal.

Skyldurækinn skalt.

Skjólið gott er falt.

Skýrist margt og síðan batnar allt.

 

Ég er í frjálsu þyngdarleysi léttur,

líð og svíf með yl að hugans vild,

tjái skoðun þá ég reynist réttur.

Ráðgæskan er góðvildinni skyld.

Kjarninn mæti kallar.

Kenndir hreinsast allar.

Klifnir verða að lokum efstu hjallar.

 

Er sem bifist bjarta orkan hér,

brjóstsins auðlegð fagni öllu er lifir.

Glöð ert þú og þetta líkar mér.

Þökk sé himni er vakir mönnum yfir.

Léki allt í lyndi

leifturs kæti ég fyndi

lengur ef þitt hjarta fagna myndi.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson

 

 

 

 

 


Ný ljóðabók: "Öldublik".

Ný ljóðabók: "Öldublik".

Ný ljóðabók er að koma út eftir mig sem heitir: ÖLDUBLIK 

Tafir hafa orðið á útgáfu bókarinnar vegna óviðráðanlegra aðstæðna. Bókin er væntanleg fljótlega.

með góðri kveðju,

Bjarni Th Rögnvaldsson.



Ný ljóðabók: "Öldublik".

Ný ljóðabók er að koma út eftir mig sem heitir: ÖLDUBLIK 

 og óska ég væntanlegum lesendum mínum gleðilegra jóla.

 Bjarni Th Rögnvaldsson.


Fagnaðarljóð (ort til Góðtemplara)

 

Glaðlyndi, hinn gáskafulli máttur,

glæðir mannsins þel og vermir lund.

Reyndu því að vera í sinni sáttur,

sækja fram á ný er hlýnar mund.

 

Stöðuglyndið helst er hjartans þáttur,

til heilla og veitir skjól á ævistund.

Að gleðja aðra er gæfumanna háttur

Guðs á vegi er styrkir dagsins fund.

 

Þá er gott að geta sæll í lundu

með góðum unað hér í stakri ró,

numið hvers manns ósk á eigin grundu

einlægur með bróðurþelið nóg.

 

Trúfesti sem Guð vor okkur gefur,

í góðu starfi lifir björt og skýr.

Gerðu vel er lífsins ljós þú hefur,

lyftu því sem innra fyrir býr.

 

Á meðan hugur viljakraftinn virkir

veraldar á slóð að morgni dags

góða landið gefur þeim sem yrkir

glóbros fögur allt til sólarlags.

 

Enn skal hvetja, heillaráðin veita,

hefja af kæti léttan félagsbrag,

gæðastörfum beint til sigurs beita

brátt svo komist allt í fyllsta lag.

 

 


Sígild sjónarmið.

Einlæg vonin verndar sálu manns,

vekur bæn og gleði hugann fyllir.

Dásamleg er dýrmæt gjöfin Hans,

dögun hverja náðarskini gyllir.

Innileikann íhygli þín fann,

yndi sem þér vísa leiðir kann.

Kyrrðin ljúfa ber í brjóstsins rann

blíðukennd sem innra þelið stillir.

 

Hvíslar þar rómur svo réttur og kær

í roðablæ dagsins hjá sundum og vogum.

Mildað þinn hugblæ sá hljómurinn fær

er hafflötur blikar í geislanna logum.

Glöggskyggni er lofsverð sem mark þitt og mið.

Mundu að brosa og hætta að tapa.

Virkni er þörf, gefur verðmæti og frið,

vandinn er ætíð að höndla og skapa.

Enn skaltu meta vor göfugu gildi.

Gerðu allt rétt líkt og Skaparinn vildi.

 

Himindýrðin helga lífssýn glæðir,

hugarþelið styrkir andans glóð.

Dagsins vorblær viljann fríska græðir,

varmi lífsins magnar hjartans óð.

Sólarmorgnar heilla mannsins hjarta

hlýr og glaður vektu máls á því

að sérhver eignist dáðadaginn bjarta

með dyggðum hugumstórum senn á ný.

Reynslutímar margar myndir eiga,

mjúku brosin reynast þörf og hlý.

 

Þú eignast bros, og brjóstið furðu hlýtt

mun bæta og styrkja verðund alls sem lifir.

Þá grær í leyndum vonarblómið blítt

og ber þér kyrrð sem vakir mönnum yfir.

Þitt er að skilja og skýra útsýn nýja,

skunda til hjálpar, eigi burt að flýja.

Framtíð landsins hafa ber í heiðri,

með hugsjón stuðla að vegferðinni greiðri.

 

 *       *        *

Í næmri sýn með söng og eigin mildi

mun sækinn kraftur bæta það sem er.

Í eigin bæn finnst margt sem gefur gildi.

Gæfa og blessun fylgi öllum hér.

 


Vatnadísin við fossinn.

 

Í regnbogans rafurloga

roðar hún geislaskrúð,

hvílist á hvelfdum boga

hrífandi ung og prúð.

 

Hún birtunni biður griða,

blæfagurt hennar mál,

umhverfið fljót að friða,

fögnuður nærir sál.

 

Lýsist í léttum úða,

er leikur um grænan skrúða.

Þarna ég þytinum hjá,

þetta vel skynja má.

 

Þrátt hann við þýðunni skín,

þrunginn af ylnum til mín.

Dreymir mig daggarkossinn

dísinnar björtu við fossinn.

 

Fanginn mér finnst ég unni:

"Fagra stund! Dokaðu við!

Gefðu oss þessa gleði,

ég glóandi hugfanginn bið".

 

Í glófögrum gáska mig hrífur

hin glaðbeitta vatnadís.

Blíð yfir bylgjunum svífur,

blessar þann stað sem ég kýs.

 

Broshlýja bogans, hér logar,

bjartsýnin öllu nú vogar.

Fagnandi fljótlega skín.

Fagur er  glampinn til mín.

 

 

Blíðum í blænum ei tefur

brjóstylur; allan mig nærir.

Glitinu vorsvölu vefur,

vinátta, strengina hrærir.

 

 

Svífandi í svanhvítu skini

svalblærinn gleður um stund,

með árglampans varma að vini

vordagur hyllir þann fund.

 

 

Þó eldur í hjartanu hjaðni

heilsa mér elskunnar blóm.

Er sem í glæðunum glaðni

glaðværð með tærleikans óm.

 

 

Ljóst er að ljúft er að dreyma

lífsþrá, er himneskur dagur

sýnir hér sólskin um geima.

Sindrandi ljóminn er fagur.

 

 

Litbrigði nem ég að nýju

er nært geta hugljúfa sál.

Fallegu hlíðarnar hlýju

heyra vort ómþýða mál.

 

 

Ó, hversu ljúft er að lifa,

lággróður blaktir í vindi.

Heyri ég hjarta mitt tifa.

Heillað það brosir í skyndi.

 

 

Allt um kring svífur svalinn,

sveimar og góðviðrið ber.

Gáskinn svo þokka þrunginn.

Þreyir hún fögur hjá mér.

 

 

Bjarni Theódór Rögnvaldsson.

 

 

 

 

 

 

 

 


Minning

 

Í draumi mínum dvel ég þér svo nærri

að dægrin ljúfu staldra við og fagna.

Þau hljóta frið í frjálsri birtu kærri,

á fögrum himni ljósadýrð nú magna.

 

Er sem megi blíðust blómaangan

berast enn að þínum hlýju vitum.

Og við nýjan hring á göngu hnitum,

hvílumst fljótt er þyngist vegargangan.

 

Oft er gott að gefa sér í næði

gullna ró er nær vorn þrótt að bæta,

lyfta geði meður kátu kvæði

um kyrrar stundir og að mörgu gæta.

 

Vil ég daglöng dýrðin sólskins bjarta

dvalið fái innst í þínu hjarta,

heilnæmt loftið lífþrek alltaf glæði.

Líði þér sem best í góðu næði.

 

Birtir til og heilsa tímar hlýir

í heimi á þeysiferð á vorum slóðum.

Og enn, mín kæra, dvelja dagar nýir,

á draumsins sviði fagna brosum góðum.

 

Sjást nú skulum hér við hæðaveginn,

heilsast munum þar er kætist lundin.

Glöð við megum fagna og verða fegin,

friðsæld eflir bjarta og nýja stundin.

 

Bjarni Theódór Rögnvaldsson.


Stormmærin

(Hér á eftir koma mörg ástarljóð) 

Stormmærin

Hýr og stillt hér stendur þú

stormamærin, fögur nú,

lipur ert í lundu.

 

Gæskan eykst í brjósti brátt,

blíðan tekur undir sátt,

lofar landsins grundu.

 

Gleðst hér allt og grær um kring,

grund og sær í ljósum hring

leiftra á ljúfri stundu.

 

Hjá þér situr sumartíð,

sæl er hlýjan undurblíð,

létt nú lengur næðir.

 

Í fjallabrekku sæll ég syng,

sindra grös og krækilyng,

mjög það mannlíf glæðir.

 

Birtist víðátta himinhá

hærra sér en fjöllin blá,

einlæg óskin græðir.

 

Styður góðvild gæfu þá

glöggt er rætist heillaspá,

frjósemd orða fræðir.

 

Meðan vonin vekur oss,

vill hún ljúfan gefa koss,

varmi um veröld flæðir.

 

Bjarni Theódór Rögnvaldsson

 

 

 


Ný ljóðabók "Árstíðirnar"

Í dag (á vorjafndægri) er útgáfudagur á nýrri ljóðabók.

Ljóðabókin heitir "Árstíðirnar".

Hægt er að nálgast hana til dæmis í bóksölunni "Pistilinn" að Hjarðarhaga 24, Í Kolaportinu og eftir helgina verður einnig hægt að nálgast hana í Bókabúð Máls og Menningar.

Fyrstu hundrað bækurnar eru í tölusettum eintökum.

Sr. Bjarni Theodór Rögnvaldsson.


Ort til stúkunnar Einingarinnar nr. 14

Kanntu að lifa ?

Kanntu að lifa og gleðjast svo glatt,

að góðu búa, það rétt er og satt.

Hlúa að mörgu og bæta þig brátt,

með batnandi heilsu í góðri sátt.

 

Þú efla vilt gæfu og góðleikans mátt,

gagnsemi sinna á stund er þú átt.

Að bindindi hyggja á farsælan hátt

og heilbrigður vera svo gleymist fátt.

 

Því hvað er sælla í sóllýstum reit

en samviskan hreina og hamingjulundin,

og allt sem fegrar og heldur sín heit

heillast af fegurð er gróandi grundin

glæðir hvern ávöxt, í friðsælli sveit.

Þá sindra brosin og gleður oss stundin.

 

Yfir og innar er stilling þín,

í andblænum tæra er eilítill niður.

Hann syngur í kyrrðinni kvæðin sín

og kraftaverkið er sálarfriður.

 

Sjá, lífsfjör er fylling orku gædd,

ferskleika lífsins í einrúmi græðir.

Oftsinnis hlýleika guðsneistans glædd,

með góðsemi næga hann mannlífið glæðir.

Og heimurinn fagnar gnægðinni gæddur,

þeim góða þokka sem brosskinið fæðir.

 

Vinátta Guðs er mildi hvers manns

er mýktina á í mætti sinnar handar.

Að sálarstyrk gætir frá himnum til hans,

og hlustar á andvörp frá öllu sem andar.

 

Þegar hjartað er heitt, glöð vor sál,

heilindi og friður í mannsins sinni,

ríkir sönn rósemd og stundin er þjál

til að skilja það góða við fögur kynni.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson

 


Næsta síða »

Um bloggið

Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Höfundur

Bjarni Theodór Rögnvaldsson
Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband