1.11.2009 | 13:04
Ort til stúkunnar Einingarinnar nr. 14
Kanntu að lifa ?
Kanntu að lifa og gleðjast svo glatt,
að góðu búa, það rétt er og satt.
Hlúa að mörgu og bæta þig brátt,
með batnandi heilsu í góðri sátt.
Þú efla vilt gæfu og góðleikans mátt,
gagnsemi sinna á stund er þú átt.
Að bindindi hyggja á farsælan hátt
og heilbrigður vera svo gleymist fátt.
Því hvað er sælla í sóllýstum reit
en samviskan hreina og hamingjulundin,
og allt sem fegrar og heldur sín heit
heillast af fegurð er gróandi grundin
glæðir hvern ávöxt, í friðsælli sveit.
Þá sindra brosin og gleður oss stundin.
Yfir og innar er stilling þín,
í andblænum tæra er eilítill niður.
Hann syngur í kyrrðinni kvæðin sín
og kraftaverkið er sálarfriður.
Sjá, lífsfjör er fylling orku gædd,
ferskleika lífsins í einrúmi græðir.
Oftsinnis hlýleika guðsneistans glædd,
með góðsemi næga hann mannlífið glæðir.
Og heimurinn fagnar gnægðinni gæddur,
þeim góða þokka sem brosskinið fæðir.
Vinátta Guðs er mildi hvers manns
er mýktina á í mætti sinnar handar.
Að sálarstyrk gætir frá himnum til hans,
og hlustar á andvörp frá öllu sem andar.
Þegar hjartað er heitt, glöð vor sál,
heilindi og friður í mannsins sinni,
ríkir sönn rósemd og stundin er þjál
til að skilja það góða við fögur kynni.
Bjarni Th. Rögnvaldsson
Um bloggið
Bjarni Theodór Rögnvaldsson
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.