Drög að ljóðrænu söngverki " Á vængjum draumsins " (nokkur af fyrstu erindunum)

Formálserindi

Jákvæð hugsun skýr í störfum sterkum

styrkjast fær með viljans þreki góða.

Hógværð eflir yndi blítt í verkum

Með auðnustund á kyrrðardögum hljóðum.

Hreinskilni má bestu vinsemd bjóða,

bæta geðhrifin hjá mönnum fróðum.

Gæfan græðir sál,

gjöfult feðra mál.

Gott er inni, en heimur á sitt prjál.

 

Dagur allt gleður með gæskustundum,

góðum vilja sinnir æskan fríð.

Oft ég lék mér einn í skógarlundum,

yndi dagsins, sumartíðin blíð

stilltist nær og stundin reyndist löng

við störf í kyrrð með ljúfum fuglasöng.

Áttu rósaást?

Áður fyrr hún sást.

Örmum vafin ennþá mun hún fást.

 

Eflist vinnustund sem er til staðar,

stýrir dagsins ferli rétta leið.

Beint mót degi fram þú heldur hraðar,

hugrekkinu með er slóðin greið.

Ylur kvöldsins kyrrist við þitt bú,

kjarnahugsun skýrist meður trú

á allt hið góða, dáðir morgundagsins,

draumaró og fegurð óskabragsins.

Blíður himins blær

með brjóstsins ró nú hlær.

Birta sálar kann að verða skær.

 

1 þáttur án prósa. Hin góðu kynni.

Hér og ofar allt um kring

óskablærinn ferskur lyftir

öllu er mestu máli skiptir,

mannsins störfum tímans hring.

Veröldin með vonarskjöld

vakir, friðar sálir manna,

eflir heillir heiðvirðs granna

frá himinsölum öld af öld.

Heilsar þróttsins hönd

hafsins fríðu strönd

á heillastund, sem kannar fríðust lönd.

 

Svíf ég létt í draumsins daggarúða

dúrinn ljúfi gefur mönnum ró,

birtast fæ í mildimjúkum skrúða

meður kyrra blænum fram við sjó.

Er sem geislinn, gegnumstreymið kunna,

geymi bros sem lífsfögnuði unna.

Stúlka stillt og skýr

með stafaró þar býr,

stendur kyrr og að mér núna snýr.

 

Í ljúfri nálægð mætir morgunlitir

milda hjartans ró í bliki nýju.

Heyrist talað: Rétt er vel þú vitir

að vanda skal til alls með nægri hlýju.

Bjart er yfir brá,

best að koma og sjá.

Ber mig vel og auðmjúk reynist þrá.

 

Er sem tilvist tærrar æskukæti

taki að birtast nú sem aldrei fyrr.

Á slíkum morgni mér ég kann ei læti,

mæli hægt og reyni að vera kyrr.

Kominn er ég hvert?

Kostuleg þú ert!

Að kunna að heilsa er fjarska mikils vert.

 

Blær í heiði er ég heyri óma

áhrif hefur góð í för með sér.

Í mildum orðum margt ber þá á góma,

mild er röddin ljúf sem hljóma fer.

Vel nú skalt þig vanda

vænn til munns og handa.

Vönduð er og prúð í mínum anda.

 

Með geislabrosi orkan utar glæðir

yndissýn í litum, grænum, bláum.

Einbeitingin mótast meðan næðir

morgunnsvalinn yfir brekkum lágum.

Kátur strengur bætir geðið bjarta,

brjóstsins rósemd stillir vit og hjarta.

Glóir kyrrð og gróður,

gætinn reynslusjóður.

Glaðnar ásýnd, sjálfur er ég hljóður.

 

Hlýrri sóma hef ég sjaldan kynnst,

hjartans góði sálarandinn skilur.

Í sælli vitund yndis fylling finnst,

fögur gnægð og léttur stundarylur.

Í slíkri andakt úr læðingi leysist

lífsfylling sem úr álögum þeysist

Algjörleikans yndi,

innri gæfu fyndi

er ég heill og sannur reynast myndi.

 

Hamingjunnar velferð þarf að vanda,

valinn streng og gjöf sem heiðra skal.

Brosað, hvíslað hægt í ljúfleiks anda.

Hreinn þú sért og gætinn með þitt tal.

Skyldurækinn skalt.

Skjólið gott er falt.

Skýrist margt og síðan batnar allt.

 

Ég er í frjálsu þyngdarleysi léttur,

líð og svíf með yl að hugans vild,

tjái skoðun þá ég reynist réttur.

Ráðgæskan er góðvildinni skyld.

Kjarninn mæti kallar.

Kenndir hreinsast allar.

Klifnir verða að lokum efstu hjallar.

 

Er sem bifist bjarta orkan hér,

brjóstsins auðlegð fagni öllu er lifir.

Glöð ert þú og þetta líkar mér.

Þökk sé himni er vakir mönnum yfir.

Léki allt í lyndi

leifturs kæti ég fyndi

lengur ef þitt hjarta fagna myndi.

 

Bjarni Th. Rögnvaldsson

 

 

 

 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Höfundur

Bjarni Theodór Rögnvaldsson
Bjarni Theodór Rögnvaldsson

Bloggvinir

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband